Frumkvöðlahraðall HÍ fyrir konur:
Ert þú með góða viðskiptahugmynd?
Hvað er AWE?
Háskóli Íslands stendur í vetur fyrir frumkvöðlahraðli fyrir konur undir merkjum AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Aðrir samstarfsaðilar eru FKA – félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna. Þetta er í fjórða sinn sem hraðallinn er haldinn.
Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. Markmið hraðalsins er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið.
Verkefnið er á vegum bandarískra stjórnvalda og er í boði víða um heim. Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ein staðlota verður haldin á Hvanneyri í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Virkjum nýsköpunarkraft kvenna!
Kynningarfundur var 21. nóvember 2024 – sjá upptöku af honum hér.
ATH. Umsækjandi þarf að hafa kynnt sér dagskrá hraðalsins (Ferlið – AWE) og skuldbindur sig til að taka þátt í allri dagskrá hans (með eðlilegum forföllum) ef umsóknin verður fyrir valinu. Umsækjendur þurfa einnig að hafa lágmarks íslenskukunnáttu.
Umsóknarfrestur er til og með 6. janúar 2025.
Fyrir hverjar?
Konur á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og verða 20 viðskiptahugmyndir valdar til þátttöku. Bæði einstaklingar og lið/teymi geta sótt um.
Þær konur sem valdar verða til þátttöku skuldbinda sig til að fara í gegnum efni netnámskeiðsins og taka þátt í vinnulotum.
Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd sem þróuð verður í gegnum námskeiðið.
Eða hafi nýlega stofnað fyrirtæki sem hefur gagn af því að fara í gegnum hraðalinn.
Við hverju má búast?
STUÐNINGUR
Sérfræðingar innan og utan Háskóla Íslands styðja við bakið á þátttakendum.
TENGSL
Tengslatorg HÍ og náms- og starfsráðgjafar HÍ hjálpa þér að efla tengsl.
VÖXTUR
Frumkvöðlahraðall hjálpar þér að vaxa og koma hugmyndinni í verk. Þú virkjar þinn innri kraft!