Um AWE

Nýsköpunarhraðall fyrir konur - AWE

Virkjum sköpunarkraft kvenna!

Háskóli Íslands stendur í vetur fyrir nýsköpunarhraðli fyrir konur undir merkjum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. 

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. 

Markmið hraðalsins er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið. 

Aðrir samstarfsaðilar hraðalsins eru Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA), Ungar athafnakonur (UAK) og Samtök kvenna af erlendum uppruna.

""

Hvað er AWE?

AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs er verkefni á vegum bandarískra stjórnvalda sem er í boði víða um heim. 

Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands, í samvinnu við FKA, heldur utan um. 

Netnámskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og samanstendur af 13 fyrirlestrum sem þátttakendur hafa aðgang að á þeim tíma sem hentar hverri og einni. 

Auk netnámskeiðsins verða vinnulotur haldnar á vegum Háskóla Íslands til að heimfæra námskeiðið betur að íslenskum aðstæðum og efla þátttakendur enn frekar sem frumkvöðla og fyrirtækjaeigendur. 

Árið 2020 munu fleiri en 5.000 konur í 50+ löndum taka þátt í AWE.

AWE kort. Blár litur sýnir starfsemi frá 2020. Appelsínugulur starfsemi frá 2019

Hver er ávinningurinn af þátttöku í AWE?

Nýsköpunarhraðallinn styður konur við að þróa viðskiptahugmyndir sínar og gerir þeim betur kleift að stofna fyrirtæki á grundvelli þeirra. 

Hraðallinn er einnig ætlaður þeim konum sem þegar hafa stofnað fyrirtæki og vilja styrkja rekstrargrundvöll þess.  

Til verður náms- og þekkingarsamfélag þar sem þátttakendur njóta handleiðslu reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við uppbyggingu fyrirtækja, mynda ný tengsl og efla starfsþróun og starfshæfni. 

Hverjar geta sótt um?

Konur á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og verða 20-25 umsækjendur valdir til þátttöku. Engin krafa er um að viðkomandi sé eða hafi verið nemandi við Háskóla Íslands. 

Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd sem þróuð verði í gegnum námskeiðið eða hafi nýlega stofnað fyrirtæki sem hefur gagn af því að fara í gegnum hraðalinn. 

Nýsköpunarhraðallinn er tilvalinn fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref og nýta sér þátttöku sína við mótun hugmynda og við að koma þeim í framkvæmd. Miðað er við að skráð fyrirtæki getið tekið þátt sem ekki eru eldri en 2 ára eða svo lengi sem heildartekjur þeirra síðast liðið ár frá skráningardegi fari ekki yfir 5 m.kr.

Við vekjum athygli á því að ferðastyrkir verða í boði fyrir þátttakendur sem búsettir eru á landsbyggðinni.

Umsóknarfrestur var til og með 29. nóvember 2020. 
Farið er með allar umsóknir sem berast í keppnina sem trúnaðarupplýsingar.

Hvernig er dagskrá AWE háttað?

Nýsköpunarhraðallinn hefst 4. janúar 2021 og lýkur 12. mars. 

Hann samanstendur af:

 • Netnámskeiðinu Dreambuilder og
 • Fjórum vinnulotum í stað- eða fjarnámi 

Netnámskeiðið byggist á 13 fyrirlestrum sem eru samtals um það bil 25 klukkustundir sem hægt er að horfa á hvar og hvenær sem er.  

Í vinnulotunum er bætt við námskeiðið fróðleik og hagnýtum ráðum um:

 • Markaðsmál
 • Stofnun fyrirtækja á Íslandi
 • Tengslanet
 • Öflun styrkja
 • Samfélagsmiðla
 • Hugverkamál
  …og annað sem gott er að þekkja við stofnun og þróun fyrirtækis.  

Þær konur sem valdar verða til þátttöku skuldbinda sig til að fara í gegnum efni netnámskeiðsins og taka þátt í vinnulotum. 

Stuðningur verður í boði fyrir þátttakendur af hálfu Háskóla Íslands þar sem:

 • Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og
 • Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, vöru- og markaðsstjóri Florealis, 

miðla af reynslu sinni sem mentorar í gegnum námskeiðið. 

Þá mun Tengslatorg Háskóla Íslands og fulltrúi Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands einnig bjóða þátttakendum stuðning á meðan nýsköpunarhraðlinum stendur. 

Aðrir sérfræðingar innan og utan Háskóla Íslands bæta enn fremur við og stækka þekkingarbrunn námskeiðsins.