Um AWE

Frumkvöðlahraðall fyrir konur - AWE

Virkjum sköpunarkraft kvenna!

Háskóli Íslands stendur í vetur í þriðja sinn fyrir frumkvöðlahraðli fyrir konur undir merkjum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. 

Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. 

Markmið hraðalsins er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið. 

Aðrir samstarfsaðilar hraðalsins eru Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna. 

Hvað er AWE?

AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs er verkefni á vegum bandarískra stjórnvalda sem er í boði víða um heim. 

Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands, í samvinnu við FKA, heldur utan um. 

Netnámskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og samanstendur af 13 fyrirlestrum sem þátttakendur hafa aðgang að á þeim tíma sem hentar hverri og einni. 

Auk netnámskeiðsins verða vinnulotur haldnar á vegum Háskóla Íslands til að heimfæra námskeiðið betur að íslenskum aðstæðum og efla þátttakendur enn frekar sem frumkvöðla og fyrirtækjaeigendur. 

Árið 2022 tóku fleiri en 5.000 konur í 80+ löndum þátt í AWE

Hver er ávinningurinn af þátttöku í AWE?

Frumkvöðlahraðallinn styður konur við að þróa viðskiptahugmyndir sínar og gerir þeim betur kleift að stofna fyrirtæki á grundvelli þeirra. 

Hraðallinn er einnig ætlaður þeim konum sem þegar hafa stofnað fyrirtæki og vilja styrkja rekstrargrundvöll þess.  

Til verður náms- og þekkingarsamfélag þar sem þátttakendur njóta handleiðslu reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við uppbyggingu fyrirtækja, mynda ný tengsl og efla starfsþróun og starfshæfni. 

Hverjar geta sótt um?

Konur á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og verða 30-40 umsækjendur valdir til þátttöku. Engin krafa er um að viðkomandi sé eða hafi verið nemandi við Háskóla Íslands. 

Annars vegar eru teknir inn einstaklingar með viðskiptahugmynd eða nýstofnað fyrirtæki og hins vegar lið sem samanstendur af 2 til 5 einstaklingum með viðskiptahugmynd eða nýstofnað fyrirtæki.

Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd sem þróuð verði í gegnum námskeiðið eða hafi nýlega stofnað fyrirtæki sem hefur gagn af því að fara í gegnum hraðalinn. 

Hraðallinn er tilvalinn fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref og nýta sér þátttöku sína við mótun hugmynda og við að koma þeim í framkvæmd. Miðað er við að skráð fyrirtæki getið tekið þátt sem ekki eru eldri en 2 ára eða svo lengi sem heildartekjur þeirra síðast liðið ár frá skráningardegi fari ekki yfir 5 m.kr.

Við vekjum athygli á því að ferðastyrkir verða í boði fyrir þátttakendur sem búsettir eru á landsbyggðinni.

Umsóknarfrestur rann út 9. febrúar.

 
Farið er með allar umsóknir sem berast í keppnina sem trúnaðarupplýsingar.

Hvernig er dagskrá AWE háttað?

Hraðallinn hefst 22. febrúar 2023 og lýkur 12. maí 2023 með útskrift. 

Hann samanstendur af:

  • Netnámskeiðinu Dreambuilder og
  • Fjórum vinnulotum í stað- eða fjarnámi 

Netnámskeiðið byggist á 13 fyrirlestrum sem eru samtals um það bil 25 klukkustundir sem hægt er að horfa á hvar og hvenær sem er.  Fyrirlestrarnir eru haldnir í hádeginu. Einnig verður ein staðlota haldin á Bifröst. 

Í vinnulotunum er bætt við námskeiðið fróðleik og hagnýtum ráðum um:

  • Markaðsmál
  • Stofnun fyrirtækja á Íslandi
  • Tengslanet
  • Öflun styrkja
  • Samfélagsmiðla
  • Hugverkamál
    …og annað sem gott er að þekkja við stofnun og þróun fyrirtækis.  

Þær konur sem valdar verða til þátttöku skuldbinda sig til að fara í gegnum efni netnámskeiðsins og taka þátt í vinnulotum. 

Stuðningur verður í boði fyrir þátttakendur af hálfu Háskóla Íslands þar sem mentorar miðla af reynslu sinni. Mentorar í AWE-hraðlinum 2023 verða:

  • Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, 
  • Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Raunvísindastofnunar,  

Þá mun Tengslatorg Háskóla Íslands og fulltrúi Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands einnig bjóða þátttakendum stuðning á meðan á hraðlinum stendur. 

Aðrir sérfræðingar innan og utan Háskóla Íslands bæta enn fremur við og stækka þekkingarbrunn námskeiðsins.

Sjá nánar um ferlið

Verðlaun í lok hraðalsins

Í lok hraðalsins verða veitt verðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlunina, besta pitch-ið og mestu framfarirnar. Bæði einstaklingar og lið geta unnið til verðlauna. 

Veitt eru eftirfarandi verðlaun: 

  • Fyrsta sæti: 7oo.ooo krónur 
  • Annað sæti: 500.000 krónur
  • Þriðja sæti: 300.000 krónur 
  • Pitch verðlaun: 300.000 krónur
  • Mestu framfarirnar: 200.000 krónur